Ískrapavélar

Fyrsta flokks ískrapavélar

Kæling ehf. leggur metnað í að framleiða fyrsta flokks ískrapavélar fyrir þá sem vilja nýta nútíma kælitækni til að hámarka aflaverðmæti.

Ískrapavélar frá Kælingu framleiða krapa úr sjó sem notaður er til kælingar á afla þegar búið er að gera að honum. Krapanum er yfirleitt dælt jafnt og þétt í ker eftir því sem lagt er í þau. Þá skiptir ekki máli hvort það er fiskur, humar, skelfiskur eða annar sjávarafli sem verið er að vinna.

Virkni ískrapavéla

Krapavél virkar í einföldu máli þannig að sjó er dælt inn og magninu stjórnað með rafstýrðum lokum. Á snertiskjánum er valið hversu mikill sjór fer í gegnum lokann og stjórnbúnaðurinn sér um að halda réttu rennsli. Rennsli er lykilþáttur í að halda stöðugu þykkni á krapanum. Frá lokunum er sjó dælt inn á ísgenerator vélarinnar þar sem ískrapinn verður til. Þykkt ísþykknisins stjórnast af magninu af sjó sem fer í gegnum vélina miðað við ákveðinn tíma. Því minni sjóflæði í gegnum strokkinn, því þykkari verður ísinn eða allt að 43% þykkur.

Í stuttu máli er ísgenerator byggður úr tveimur misstórum rörum, það minna inni í því stærra og er kælimiðillinn þar á milli. Honum er haldið við -23°C þannig að sjórinn sem fer inn í ísgeneratorinn frýs og myndar ískristalla á innanverðu rörinu sem eru svo skafnir af jafnóðum og þeir myndast með sköfubúnaði vélarinnar. Með þessari kælitækni fyllist ískrapastrokkurinn af ís sem svo þrýstist út úr vélinni.

Þægileg stjórnun með snertiskjá

Krapavélinni er stjórnað á snertiskjá þar sem einig er hægt að fylgjast vel með ískrapakerfinu. Snertiskjárinn er oft hafður upp í brú í minni bátum eða þar sem gott aðgengi er til að fylgjast með honum. Stjórnunin er einföld þar sem hugbúnaður vaktar framleiðsluna. Kerfið er ræst með einum hnappi.

Kæling býður ískrapavélar fyrir allar stærðir fiskiskipa

Allt frá dagróðrabátum upp í stærstu togara. Ef þú vilt hámarka ferskleika þinna sjávarafurða þá er Kæling með lausnirnar fyrir þig.

 

Uppbygging

Krapavélin er byggð upp á grind úr ryðfríu stáli, ásamt þeim íhlutum sem til þarf, kæliþjöppu, ísgenerator, eimsvala, stjórnlokum og stýrilokum. Stjórntöflu og tengiskáp má staðsetja á krapavélinni eða nánast hvar sem er í skipinu. Sjódæla og sjósíuhús fylgja ísvélinni og það eina sem upp á vantar fyrir uppsetningu á kerfinu er lagnaefni.

Unnið með ískrapann um borð

Það er misjafnt hvernig unnið er með ísinn eftir að hann kemur út úr krapavélinni.

Á minni bátum sem róa 1-3 daga, er ísinn látinn fara beint í kar sem er með tappa, þannig að ísinn fer með aflanum í fiskikarið. Í þessum tilfellum er ísinn hafður um 30% þykkur og –2,8°C kaldur, fiskurinn fellur ofan í ískrapann og mikil hraðkæling verður. Innan fárra mínútna er fiskurinn komin undir 0°C og liggur þannig í fljótandi ískrapa.

Í stærri skipum er ísþykknið oftast látið streyma í ístank þar sem því er safnað upp. Inni í tanknum er hræra til þess að koma í veg fyrir að ísinn skilji sig frá sjónum. Hæðarstýring á tanknum stjórnar svo ísvélinni, hún stoppar þegar tankurinn er fullur og fer í gang þegar tankurinn er í um 80%. Undan ískrapatanknum er svo ísnum dælt á aflann, þetta getur verið bæði þunnur og þykkur ís, eftir því hvað verið er að gera.

Framfarir í varðveislu á matvælum

Mikil þróun hefur verið í kælingu á matvælum, ekki síst í sjávarútvegi. Á undanförnum árum hefur kæling með ískrapa sannað sig sem verulega öflug aðferð til kælingar á afla.
Það er mikill munur á að kæla fisk með ískrapa eða með hefðbundnum skelís. Með ískrapa er allt yfirborð fisksins í snertingu við -2.8°C kaldan vökva og kæling því mjög hröð og markviss. Hefðbundinn ís snertir einungis lítinn hluta af yfirborði fisksins og kæling því ekki eins hröð og jöfn fyrir allan fiskinn. Með ískrapa er kjarnhita aflans náð niður á stuttum tíma og hámarks gæðum viðhaldið.

Kostir þess að nota ískrapa:

  • Hröð niðurkæling
  • Jöfn kæling á öllum afla
  • Minni og þægilegri vinna
  • Orkusparandi
  • Auðvelt að dæla ískrapanum þangað sem hans er þörf
  • Eykur gæði afla og afurða
  • Lengir líftíma vöru